Katherine Mansfield
Katherine Mansfield var á sínum tíma einn sérstæðasti og litríkasti rithöfundurinn í hópi kvenna sem skrifuðu á enska tungu. Sögur hennar sem voru mjög persónulegar og byggðu að mestu á hennar eigin reynslu túlkuðu veruleikann á annan hátt en áður hafði verið gert. Hún nálgaðist viðfangsefni sín oft með sýn barna og notaði líkingar og myndmál úr hugarheimi þeirra. Hjá henni voru börn með sitt sérstaka myndmál ólíkt öðrum höfundum sem bjuggu myndmál og líkingar barna í búning fullorðins höfundar. Má segja að hún hafi á þennan hátt innleitt nýjan stíl inn í bókmenntirnar og þrátt fyrir heldur dæmar undirtektir almennings var hún virt meðal bókmenntafólks. Þó svo að Katherine hafi ekki náð háum aldri hafa sögur hennar elst vel og stíll hennar á jafn vel við í dag og hann átti þá. Til marks um þá virðingu sem hún naut sem rithöfundur, var haft eftir rithöfundinum Virginu Woolf að Mansfield hafi verið eini höfundurinn sem hún hafi öfundað af hæfileikum sínum. Bækur hennar hafa verið þýddar á fjölmörg tungumál.
Katherine Mansfield eða Kathleen Mansfield Beauchamp eins og hún hét fullu nafni var fædd í Wellington á Nýja-Sjálandi 14. október árið 1888. Faðir hennar var bankamaður og því var fjölskyldan ágætum efnum búin.
Fyrstu árin lifði hún frekar fábrotnu lífi í faðmi fjölskyldunnar og gekk í skóla í Wellington þar sem hún skrifaði tvær sögur í skólablaðið 1898 og 1899, þá 10 og 11 ára gömul. Virðist hún því hafa haft tilhneigingu til að skrifa strax á unga aldri.
Ekki var þó um neitt framhald á skrifum hennar að ræða til að byrja með og virtist um tíma sem hún ætlaði heldur að hasla sér völl sem tónlistarmaður, en hún var mjög frambærilegur sellóleikari.
Árið 1902 hélt Katherine til Englands þar sem hún stundaði framhaldsnám, en flutti aftur til Nýja-Sjálands fjórum árum síðar (1906). En lífið þar átti ekki vel við hana eftir dvölina á Englandi og hún sneri aftur til Englands tveimur árum síðar.
En það var fyrst eftir að hún flutti aftur til Nýja-Sjálands að hún byrjaði að skrifa smásögur. Árið 1906 fékk hún nokkrar sögur birtar eftir sig í áströlsku blaði og var það í fyrsta sinn sem hún fékk greitt fyrir skrif.
Þegar hún flytur aftur til Englands 1908 heldur hún áfram að skrifa og fer þá að aðhyllast nýjan og frjálsari lífsstíl, eins og margir af helstu listamönnum þess tíma. Hún kynntist manni að nafni George Bowden, giftist honum og skildi svo við hann, og tók allt ferlið einungis þrjár vikur.
Skömmu síðar varð hún svo þunguð eftir fjölskylduvin frá Nýja-Sjálandi, en missti fóstrið. Var það árið 1909. Til að halda sér uppi á Englandi fékk hún starf sem blaðakona við tímaritið The New Age þar sem hún skrifaði um listir, stjórnmál, bókmenntir og jafnvel trúmál.
Upp úr þessu fara skrif hennar að vekja aukna athygli útgefenda og fyrsta smásagnasafnið, In a German Pension, kemur út árið 1911. Tók hún þá upp rithöfundanafnið Katherine Mansfield. Hún sýkist þá af kynsjúkdómi, sem varð til þess að hún þjáðist af gigt það sem eftir var, en það hafði líka töluverð áhrif á sálarlíf hennar.
Þrátt fyrir góða umsögn hlaut fyrsta smásagnasafn hennar ekki almenna náð í augum almennings og voru það henni mikil vonbrigði. Hún kynntist svo rithöfundinum John Middleton Murry, sem hún giftist og entist það hjónaband þar til hún lést.
Annað sem hafði mikil áhrif á hana og skrif hennar var dauði bróður hennar í fyrri heimsstyrjöldinni. Upp úr því fór hún að leita í skrifum sínum aftur til fortíðarinnar og þá varð til hennar sérstæði stíll, þar sem hún notar barnsaugu til að lýsa umhverfi sínu.
Á þessum tíma fór hún einnig að umgangast marga af þekktustu rithöfundum samtíðar sinnar, eins og D.H. Lawrence og Virginu Woolf.
En vonbrigðin með viðtökur fyrstu bókarinnar sátu í henni og þrátt fyrir að hún skrifaði töluvert allan tímann frá útkomu hennar, kom næsta smásagnasafnið, Prelude, ekki út fyrr en árið 1918.
Heilsu hennar hrakaði hratt á þessum árum og árið 1917 greindist hún með berkla. Upp úr því má segja að líf hennar hafi verið ein samfelld þrautaganga, en það er þó einmitt á þessum tíma sem sköpunarkraftur hennar nær hæstu hæðum.
Til að freista þess að ná heilsunni aftur hélt hún frá 1918 reglulega til meginlands Evrópu þar sem hún reyndi meðferð við ýmis heilsuhæli, en allt kom fyrir ekki. Í október árið 1922 skrifar hún manni sínum að hún ætli að fara til Fontainbleu og reyna meðferð hjá þekktum heilsulækni, Gurdjieff. Murry hafði ekki viljað fara með henni þangað og dvaldi í London á meðan. Að beiðni hennar hélt hann þó til Fontainbleu í janúar næsta ár. Kom hann þangað 9. janúar og áttu þau ánægjulega kvöldstund saman, en þegar þau voru að fara heim byrjaði henni að blæða og hún lést klukkan hálf ellefu það kvöld.
Rithöfundurinn
Katherine Mansfield skrifaði alla tíð mikið. Auk skáldverka hennar hélt hún dagbók frá því hún var ung stúlka og fram á síðasta dag. Gaf eiginmaður hennar Murry út dagbækur hennar, bréf og önnur skrif að henni látinni og þurfti alls tíu bindi til að koma því fyrir. Fyrstu sögur hennar birtust í skólablaði þegar hún var 10 og 11 ára og þar má glögglega sjá frjótt og auðugt ímyndunarafl. Þrátt fyrir að nokkur tími ætti eftir að líða þangað til hún fann hjá sér köllun til að gerast rithöfundur virðist sem henni hafi verið nauðsyn að skrifa stöðugt.
Eins og áður sagði var hún óánægð með viðtökur fyrsta smásagnasafns síns, In a German Pension, sem kom út árið 1911. Bókin fékk þó almennt ekki slæma dóma hjá gagnrýnendum, en seldist illa. Katherine sjálf var heldur ekki nógu ánægð með hana þegar fram liðu stundir. Árið 1920 skrifar hún: „Ég get ekki undir nokkrum kringumstæðum látið gefa In a German Pension út aftur. Hún er of óþroskuð... og alls ekki nógu góð.“ Eftir útkomu þeirrar bókar birti hún nokkrar sögur í tímaritum, m.a. tímaritinu Rhythm sem maður hennar John Middleton Murry ritstýrði.
Snemma árs 1915 skrifar hún í dagbók sína: „Á þessu ári hef ég aðeins tvær óskir og þær eru að skrifa og fá greitt fyrir það.“ Það sama ár skrifar hún í dagbók sína að hún sé að vinna að stórri skáldsögu, en það virðist frekar hafa verið óskhyggja en að hún væri raunverulega að vinna að slíkri sögu, því engin skáldsaga er til eftir hana. Peningaáhyggjur setja einnig sitt fingrafar á sálarlíf hennar. Á einum stað skrifar hún: „Af hverju á ég ekki alvöru heimili, alvöru líf – Ég er kona. Ég þrái hluti. Mun ég einhvern tímann eignast þá? Það eina sem ég geri alla daga og öll kvöld er að skrifa. Ég gef mér varla tíma til að taka mér matarhvíld.
Í apríl árið 1919 er hún snýr aftur til Englands eftir að hafa leitað sér lækninga finnur hún að hverju stefnir. Dagbókin er enn hennar trausti trúnaðarvinur: „Ég er enn að skrifa - Bara að ég geti nú skrifað eina sögu til viðbótar.“
Þriðja og síðasta smásagnasafnið, The Garden Party and Other Stories kom svo út árið 1922. Með þeirri bók fékk hún loks þá viðurkenningu sem hún átti skilið.
Stíll og einkenni
Katherine Mansfield var, ásamt rithöfundum á borð við T.S. Elliot, James Joyce, Virginu Woolf og fleirum, hluti af nýrri vakningu í enskum bókmenntum. Þetta var tími breytinga og tilrauna sem hún sótti í, en þó má sjá mikil áhrif frá æskuslóðum hennar á Nýja-Sjálandi í verkum hennar, einkum undir það síðasta. Sérstaklega á það við um efniviðinn og tungutakið.
Það einkennir sögur hennar að þar er ekki að finna neinn beinan söguþráð eða samfellda frásögn eins og eldri rithöfundar voru vanir að hafa, þar sem eitt leiðir af öðru. Sögur hennar snúast meira um einn atburð eða eina hugsun. Þar sem hún notar hefðbundinn söguþráð er hann meira sem aukaatriði, nokkurs konar umgjörð utan um einhverja mynd eða tilfinningu, einhvern einn atburð.
Hún sótti myndir og líkingar gjarnan í náttúruna; notaði blóm, veður og liti til að byggja upp stemningu og umhverfi. Þá endurspeglaði hún í skrifum sínum nokkuð nýstárlegar skoðanir; hún fjallaði t.a.m. um einmanaleika og mannlega einangrun, reifaði ólík hlutverk og stöðu karla og kvenna í samfélaginu og andstæður voru henni hugleiknar; ást og vonbrigði, draumur og veruleiki, fegurðin og ljótleikinn, gleði og þjáning o.s.frv. Sögur hennar voru fullar af táknum og duldri merkingu og má ætla að hún hafi þar orðið fyrir áhrifum frá Chekov sem hún mat mikils.
En þó verður hennar einkum minnst fyrir það hvernig hún endurspeglaði alveg nýja sýn þegar hún skrifaði um börn. Börn í sögum hennar fengu að hugsa eins og börn og fengu að skynja veruleikann eins og börn, sem engum höfundi virtist hafa dottið í hug áður.